Ferill 918. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1607  —  918. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003 (barnabætur, sérstakur vaxtastuðningur).

Frá 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Annar minni hluti leggur til að sérstakar vaxtabætur verði greiddar milliliðalaust, þ.e. beint til lántaka eins og almennt er gert við greiðslu almennra vaxtabóta. Þannig vill 2. minni hluti einfalda framkvæmdina og tryggja að tæknilegir erfiðleikar við útfærsluna verði ekki til þess að fólk verði af vaxtastuðningi. Samkvæmt frumvarpinu er mögulegt að nýta bæturnar til lækkunar á afborgunum sem mun að sama skapi hækka ráðstöfunartekjur viðkomandi lántaka. Niðurstaðan væri því hin sama fyrir lántaka hvort sem greitt er beint til hans eða greiðslur látnar ganga til lánveitanda til lækkunar á afborgun láns óski lántaki þess. Tæknilega getur verið ómögulegt fyrir Fjársýsluna að greiða beint inn á afborgun lána. 2. minni hluti telur að flækjustig með Fjársýsluna sem millilið sé óþarft því að ráðstöfunartekjur lántakans verða þær sömu.
    Með vísan til framangreinds leggur 2. minni hluti til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við b-lið 1. gr.
     a.      2. málsl. 5. tölul. orðist svo: Á tímabilinu 1.–30. júní 2024 getur hver sá sem hefur fengið ákvarðaðan sérstakan vaxtastuðning valið á þjónustusíðu sinni á skattur.is inn á hvaða lán, sbr. 1. tölul., skuli greiða greinda fjárhæð, eða eftir atvikum valið að fá jafnar útborganir vaxtastuðnings til loka árs 2024 þar til fjárhæðinni hefur allri verið ráðstafað.
     b.      1. málsl. 6. tölul. orðist svo: Ríkisskattstjóri skal á tímabilinu 1.–31. júlí 2024 afhenda Fjársýslunni upplýsingar um ákvörðun sérstaks vaxtastuðnings og inn á hvaða lán skal greiða, sbr. 5. tölul., á tímabilinu.
     c.      2. málsl. 6. tölul. orðist svo: Fjársýslan greiðir sérstakan vaxtastuðning og miðlar upplýsingum innan fimm virkra daga frá móttöku til lánveitenda sem ráðstafa greiðslum beint inn á lán, greiðir út vaxtastuðning og ef við á til greiðslu uppgreiðslugjalds, eða afborganir innan fimm virkra daga frá móttöku í samræmi við 5. tölul.
     d.      5. málsl. 6. tölul. orðist svo: Ráðstafi lánveitandi ekki greiðslu inn á lán í samræmi við ákvæði þetta skal hann endurgreiða Fjársýslunni þá fjárhæð sem ekki var ráðstafað.

Alþingi, 30. apríl 2024.

Oddný G. Harðardóttir.